Hinn samevrópski viðmiðunarrammi tungumála
Þú getur gert sjálfsmat á því hve vel þú talar, skilur og lest á hinum ýmsu tungumálum. Hinn samevrópski viðmiðunarrammi tungumála hefur að geyma hæfnilýsingar sem hjálpa þér að meta tungumálafærni þína.
Skilningur
Ég get skilið algengustu orð og einföldustu setningar um sjálfan mig, fjölskyldu mína og helstu áþreifanlegu kringumstæður þegar fólk talar hægt og greinilega við mig.
Ég get skilið þau orðatiltæki og algengasta orðaforðann á þeim sviðum sem tengjast mínum brýnustu persónulegu þörfum (t.d. helstu persónu- og fjölskyldutengdar upplýsingar, verslun, nánasta umhverfi og atvinnumöguleika). Ég átta mig á aðalatriðum þess sem verið er að fjalla um í stuttum, hnitmiðuðum skilaboðum eða tilkynningum.
Ég get skilið aðalatriði umræðunnar þegar verið er að fjalla um það sem ég fæst við daglega, á borð við vinnu mína, skóla eða frístundir o.s.frv, en þó að því tilskyldu að það sé flutt á skýru og venjulegu máli. Ég get tileinkað mér helstu atriði dægurmálaumræðunnar í útvarps- og sjónvarpsþáttum, eða þegar verið er að fjalla um persónu- eða fagleg áhugamál mín, ef sú umræða er tiltölulega hæg og skýrmælt.
Ég get skilið langa orðræðu og fyrirlestra og jafnvel fylgst með flóknum rökræðum að því tilskyldu að umræðuefnið sé mér sæmilega kunnuglegt. Ég get skilið allflestar sjónvarpsfréttirnar og umræðuþætti um málefni líðandi stundar. Ég get skilið flestallar kvikmyndir svo fremi sem málfarið er venjuleg mállýska.
Ég get skilið langa orðræðu, jafnvel þótt hún sé ekki byggð upp skipulega og jafnvel þegar hugtakatengslin eru aðeins gefin í skyn en ekki tjáð fullum fetum. Ég get skilið flestallar kvikmyndir og sjónvarpsþætti nokkurn veginn fyrirhafnarlaust.
Ég er ekki í neinum vandræðum með að skilja hvers kyns talað mál, hvort sem það er milliliðalaust eða á öldum ljósvakans, jafnvel þótt um sé að ræða hraðmæltan heimamann, en þó að því tilskyldu að mér hafi gefist tækifæri til þess að venjast framburði hans..
Ég get áttað mig á algengum nöfnum, orðum og skilið einföldustu setningar, til dæmis í tilkynningum, á veggspjöldum eða í vörulistum.
Ég get lesið stutta og hnitmiðaða texta. Ég get áttað mig á vissum auðskiljanlegum upplýsingum sem manni berast dags daglega úr ýmsum áttum eins og til dæmis auglýsingum, kynningarbæklingum, matseðlum eða tímatöflum og ég skil einföld bréf, á persónulegum nótum, sem mér berast.
Ég get skilið texta sem eru að mestu leyti orðaðir á blátt áfram tungumáli eða tengjast atvinnumálum. Ég get skilið lýsingar á viðburðum líðandi stundar eða tilfinningar og árnaðaróskir í persónulegum bréfum.
Ég get lesið blaðagreinar og skýrslur þar sem fjallað er um vandamál líðandi stundar og höfundarnir kryfja mismunandi skoðanir manna og viðhorf til hlítar. Ég er fær um að skilja málfarið á nútímabókmenntum.
Ég get skilið langa og flókna staðreynda- eða bókmenntatexta, og jafnvel gert greinarmun á blæbrigðum. Ég get skilið tímaritsgreinar um sérhæfð málefni og löng tæknileg fyrirmæli, jafnvel þótt þau séu ekki á mínu sviði.
Ég get vandkvæðalaust lesið nánast hvaða tegund ritaðs máls sem er, þar með talið úrdrætti, eða flókna texta frá uppbyggingar- eða málfræðilegu sjónarhorni, eins og til dæmis handbækur, sérfræðigreinar eða bókmenntaverk.
Talmál
Mér tekst að tjá mig á einfaldan hátt svo fremi sem hinn aðilinn er tilbúinn til þess að endurtaka eða umorða setningar á einfaldari hátt eða tala hægar og sé til í að hjálpa mér við að koma orðum að því sem ég vil segja. Ég get spurt og svarað einföldum spurningum um mínar brýnustu þarfir eða um algengustu umræðuefni.
Ég get tjáð mig þegar um er að ræða að leysa algeng og einföld verk af hendi sem krefjast þess bara að menn skiptist á einföldum og blátt áfram upplýsingum um algeng atriði og athafnir. Ég get bjargað mér í stuttum samræðum fólks, enda þó ég skilji yfirleitt ekki nógu mikið til þess að geta haldið viðræðunum gangandi upp á eigin spýtur.
Ég get tekist á við flestallar aðstæður sem upp kunna að koma á meðan ég ferðast um það svæði þar sem þetta tungumál er talað. Ég er fær um að taka undirbúningslaust þátt í umræðum um atriði sem ég þekki vel, eru af persónulegum toga eða tengjast daglega lífinu (t.d. fjölskyldu, tómstundum, vinnu, ferðalögum og viðburðum líðandi stundar).
Ég get hafið reiprennandi og óundirbúnar samræður við heimamenn sem gera fullkomlega eðlileg skoðanaskipti við þá möguleg. Ég get tekið virkan þátt í umræðum á kunnuglegum grundvelli þar sem ég ber skoðanir mínar á borð og rökstyð þær.
Ég get tjáð mig reiprennandi og fyrirhafnarlaust án þess að alltof áberandi sé að yfir standi leit að því hvernig best sé að komast að orði. Ég get beitt tungumálinu á sveigjanlegan og áhrifaríkan hátt, jafnt í félags- sem fagmannlegum tilgangi. Ég get komið orðum og skoðunum á framfæri á skorinorðan hátt og fléttað málflutning minn kunnáttusamlega saman við framlag annarra ræðumanna.
Ég get fyrirhafnarlaust tekið þátt í hvaða samræðum eða rökræðum sem er, auk þess sem ég er vel með á nótunum varðandi staðbundnar málvenjur og talsmáta. Ég get tjáð mig reiprennandi og gefið ýmsan hárfínan skilning til kynna á ótvíræðan hátt. Ef ég lendi í kröggum, þá get ég fikrað mig til baka og umorðað vandmálið á svo hnökralausan hátt að áheyrendur verða þess tæpast varir.
Ég get notað einföld orðasambönd og setningar til þess að tjá hvar ég á heima og sagt frá mínum helstu kunningjum.
Ég get notfært mér fjölmörg orðasambönd og setningar til þess að lýsa fjölskyldu minni eða öðru fólki á einfaldan hátt, hvernig þau búa, minni eigin menntun, við hvað ég starfa núna eða mínu síðasta starfi.
Ég er fær um að tengja orðatiltæki saman á einfaldan hátt til þess að lýsa lífsreynslu minni og upplifun, draumum, óskum og framavonum mínum. Ég er fær um að koma með stuttlegar röksemdafærslur og útskýringar á skoðunum mínum og fyrirætlunum. Ég get sagt sögu eða skýrt frá atburðarásinni í bók eða kvikmynd og lýst skoðun minni á þeim.
Ég er fær um að bera á borð greinargóða og nákvæma lýsingu á hverju því umfjöllunarefni sem tengist áhugamálum mínum. Ég get gert grein fyrir mismunandi sjónarmiðum manna um visst álitaefni. og jafnframt útskýrt þá kosti og galla sem þeim eru fylgjandi.
Ég er fær um að bera á borð greinargóða og nákvæma lýsingu, ásamt undirþáttum, á flóknum málefnum, þar athygli manna er dregin að vissum þáttum og loks tekið mál mitt saman í viðeigandi niðurstöðu.
Ég er fær um að bera á borð gagnorða skýringu eða röksemdafærslu sem rennur mjúklega í gegn með þeim stílbrögðum sem tilheyra viðfangsefninu ásamt áhrifaríkri og rökrænni uppbyggingu sem beinir athygli áheyrandans að aðalatriðunum og hjálpar honum við að leggja þau á minnið.
Skriftir
Ég get samið stuttan og einfaldan texta á póstkort, til dæmis til þess að senda kveðjur úr sumarfríinu. Ég get fyllt út eyðublað með eigin persónuupplýsingum, eins og til dæmis nafn, þjóðerni og heimilisfang á skráningarblað hótelgesta.
Ég get samið stutt og einföld skilaboð eða athugasemdir. Ég get samið örstutt persónulegt bréf handa einhverjum, til dæmis til þess að þakka viðkomandi fyrir eitthvað.
Ég get samið einfaldan, samfelldan texta um viðfangsefni sem mér eru kunn eða hafa vakið sérstakan áhuga minn. Ég get samið persónuleg bréf þar sem ég fjalla um upplifun mína og þau áhrif sem ég hef orðið fyrir.
Ég er fær um að semja greinargóðan og ítarlegan texta um fjölmörg viðfangsefni sem tengjast áhugamálum mínum. Ég get samið ritgerð eða skýrslu, komið upplýsingum á framfæri eða fært rök fyrir því hvers vegna menn ættu að vera fylgjandi eða á móti vissri skoðun. Ég get samið bréf þar sem ég geri persónulega grein fyrir mikilvægi tiltekinnar reynslu eða viðburða.
Ég get tjáð mig skriflega í skýrum og vel uppbyggðum texta, þar sem vissir þættir eru teknir til nánari umfjöllunar í talsvert löngu máli. Ég get fjallað um flókin viðfangsefni hvort heldur sem er í bréfi, ritgerð eða skýrslu, þar sem ég undirstrika þá þætti sem mér finnst skipta höfuðmáli. Ég er fær um að beita vissum stílbrögðum allt eftir því hvaða lesendur eru hafðir í huga.
Ég er fær um að semja greinargóðan texta sem rennur mjúklega áfram, ásamt tilheyrandi stílbrögðum. Ég get samið flókin bréf, skýrslur og greinar þar sem röksemdafærslan er sett fram á áhrifaríkan og rökrænan hátt, fangar athygli áheyrandans og hjálpar honum við að leggja aðalatriðin á minnið. Ég get gert samantektir eða samið ritdóma um fagleg eða bókmenntaleg verk.